Ferill 123. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 123 . mál.


128. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Sturla Böðvarsson,


Rannveig Guðmundsdóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.



1. gr.

    32. gr. laganna falli brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlist þegar gildi.

Greinargerð.


    Eftir setningu laga nr. 113/1990 greiða sveitarfélögin, eins og aðrir launagreiðendur, tryggingagjald til ríkisins. Hluti tryggingagjalds rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Samkvæmt því ættu starfsmenn sveitarfélaga að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta úr þeim sjóði. Svo er þó ekki því í 32. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er kveðið á um að sveitarfélög ábyrgist útgjöld vegna atvinnuleysisbóta til starfsmanna sinna og starfsmanna stofnana sveitarfélaga. Á því varð engin breyting þrátt fyrir það ákvæði laga nr. 113/1990 að sveitarfélög skuli, eins og aðrir launagreiðendur, greiða gjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs með tryggingagjaldi.
    Fráleitt er að ætla sveitarfélögunum umfram aðra launagreiðendur að greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs með tryggingagjaldi og ábyrgjast jafnframt greiðslu atvinnuleysisbóta til starfsmanna sinna en þannig hefur þetta verið í framkvæmd.
    Frumvarp þetta felur í sér að 32. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, falli brott og starfsmenn sveitarfélaga og stofnana þeirra njóti sömu réttinda og aðrir launþegar hvað varðar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Lagt er til að lagabreyting þessi öðlist þegar gildi.



Fylgiskjal.


Bréf sveitarfélags til launanefndar sveitarfélaga um úrskurð


Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu atvinnuleysisbóta


til fyrrverandi starfsmanns þess.



Málsatvik:
    Hinn 1. júlí 1991 var [G] ráðin í hlutastarf á skrifstofu [B].
    Í ágúst sl. selja þau hjónin fasteign sína, [D], og kaupa íbúð í Reykjavík. Jafnframt segir [G] upp starfi sínu og óskar eftir að starfslok geti orðið 1. september og var það samþykkt af vinnuveitanda.
    1. september flytur [G] lögheimili sitt til Reykjavíkur. 2. október sl. sækir hún um atvinnuleysisbætur í Reykjavík og eru henni úrskurðaðar bætur af Tryggingastofnun, en þar sem hún sé í Félagi opinberra starfsmanna beri [B] sem fyrrverandi vinnuveitanda að greiða bæturnar.
    Hér virðist vera óþolandi meinloka í gildandi lögum, ef rétt er, og fer undirritaður fram á að launanefndin gangi í málið.

Eftirfarandi er áréttað:
    [G] hætti starfi að eigin ósk og með fullu samkomulagi. Hún flytur lögheimili sitt til Reykjavíkur og greiðir því ekki gjöld til sveitarfélagsins. [B] hefur greitt tryggingagjald vegna hennar eins og annarra starfsmanna sinna og er því um tvígreiðslur að ræða.